Íslenska efnahagsundrið!

Ég hef undanfarna daga verið að lesa og hugsa um ritgerð Stefáns Ólafssonar prófessors og hagfræðings úr veftímaritinu "Stjórnmál og stjórnsýsla".     Ritgerðin ber það ágæta nafn "Íslenska efnahagsundrið" og lýsir þróun efnahags íslendinga frá lýðveldisstofnuninni til þessa dags, hvernig fátæktin breyttist í velmegun og velsæld þó á ýmsu gengi.    Mér sýnist á öllu að þetta muni verða skrýtin bloggfærsla sambland af ævisögu minni og pólitískum upphrópunum því ég er í "vondu" andlegu jafnvægi.    

Þannig er að ég á son í USA sem er nú ekki í frásögur færandi nema hvað að hann fær TAKAYASU s.l. vor.     Núna á gamlárskvöld bætist svo grátt ofan á svart því þegar ég hringdi í hann um miðnættið var hann svona fárveikur að hann gat varla talað.    Gat þó hringt í 911 og komst á heilsugæslu og þaðan í flýti á sjúkrahús.    Þar kom í ljós að hann var með ígerð í heilanum og varð að fara umsvifalaust í heilaskurðaðgerð.     Tókst hún reyndar með ágætum.    Síðar kom í ljós að ígerðin var af völdum bakteríu er nefnist NOCARDIA og er ekki beint vinsamleg mannfólki.   Drengnum heilsast samt tiltölulega vel og maður vonar það besta.   Þó eru þessir dagar núna fremur þungir og því gott að "afreagera" með því að skrifa eitthvert bull og vangaveltur sem hrærast í höfðinu á manni.    Fyrir þá sem ekki vita þá er TAKAYASU ein tegund af s.k. slagæðabólgum, sjaldgæf mjög og leggst einkum á ungar konur frá Austurlöndum fjær!     Lífið er stundum skrýtið!

En víkjum nú aftur að grein Stefáns Ólafssonar.   Það er ákaflega umhugsunarvert fyrir mig að horfa á súluritið á mynd 2. (Því miður get ég ekki náð súluritinu út úr greininni til að birta hér en vísa til greinarinnar!)  Mér sýnist að þetta sýni líf mitt nokkuð í hnotskurn!!!   Þar sést að mjög erfið ár koma í upphafi lýðveldisins - ég er fæddur 1945 svo það er eðlilegt! Pabbi, sem ég líkist nokkuð - bara latari - byggði 2 íbúðarhús árin 1946-50, hann hefur verð jafn heppinn og snjall og ég í sínu basli (reyndar mun betri því ég hef aldrei byggt íbúðarhús - en minkahús reyndar og fór flatt á því)!  

Þegar ég hugsa um það þá hlýtur pabbi að hafa verið í fullri vinnu til að framfleyta fjölskyldunni, konu og 7 börnum.    Hann hefur því byggt þessi hús á kvöldin og nóttunni enda maðurinn víkingur duglegur.     Eins og sönnum verkamanni sæmdi trúði hann á Sjálfstæðisflokkinn og elskaði Ólaf Thors!     Mamma fullyrti að hann hefði oft látið helminginn af laununum sínum renna í flokkssjóðinn þegar þar var þurrð!     En það verður ekki við öllu séð.  Hann lenti í nefnd fyrir flokkinn en þá komu upp hagsmunaárekstrar milli samviskunnar og flokkshollustunnar og samviskan vann og hann greiddi atkvæði með kommunistum um eitthvert mál!     Það fór allt í háaloft og menn rifust.     Það þoldi pabbi ekki og fékk hjartaáfall og dó, 52 ára.      Þetta er ættarfylgja og þess vegna vil ég endilega hafa sjúkrahúsið hér á Sauðárkróki í því horfi sem nú er því ég er fastagestur þar svona 3. hvert ár síðan 1991.    Er næsta víst að ég mundi ekki lifa af flutning til Akureyrar jafnvel þó vegurinn sé orðinn góður og Giljareitirnir horfnir!       Líður mjög að því að ég slái aldursmet karlmanna í þessum ættlið en meðallífaldur þeirra er ca. 52-53 ár en ég brátt að ná 64. árinu!   Þetta var um "harðindaárin" 1946-1949!

Næsti harðindakafli kemur 1967-1970.      Það passar alveg því þá er ég í háskóla úti í Kaupmannahöfn.      Eru mér þessi ár mjög minnisstæð því gengisfellingarnar gerðu þessi litlu námslán sem fengust að nánast engu og gjaldeyristakmarkanirnar voru slíkar að það var nánast engan gjaldeyri að fá.     Ég skil ekki enn í dag hvernig mamma gat sent mér þann gjaldeyri sem fékkst og svo nokkra 100-kalla í viðbót sem ég gat farið með í neyð og skipt í bankanum á "Hovedbanegaarden".     Það var hennar afrek að ég gat borgað húsaleigu, bækur og fékk oftast eina máltíð á dag - sem ég eldaði  sjálfur.    Þetta voru samt sannkölluð harðindaár og ekki síst fyrir mig "sveitamanninn" voru þessi ár erfið því ofan á þetta peningahallæri bættist óskapleg ótíð með stórkostlegra kal í túnum en ég held að hafi sést fyrr né síðar!      Þar við bættist fiskleysið/síldarleysið sem auðvitað olli gengisfellingunum sem voru að drepa mann.      Þannig kynntist ég harðindunum 1967-70.   

Síðan kemur góðæri sem, að einu ári undanskildu varir alveg frá 1970 til 1989.     Þess sést til dæmis engan stað að árið 1979 var alveg hryllilegt ár fyrir bændur - og þá var ég orðinn bóndi.   Kalt og vont vor - stórhríð á 17. júní, vont sumar, tún alveg graslaus og leiðinda haust!      En fiskafli hefur sjálfsagt verið með ágætum.

1983 var hins vegar vont ár samkvæmt línuriti Stefáns og það passar alveg ágætlega.     Ég átti nefnilega nokkrar kindur en upp í þeim kom riða veturinn 1983-4 svo ég varð að skera niður.    Þá var sú hugljómun uppi að loðdýrarækt gæti bjargað, ef ekki heiminum, þá alla vega riðubændum svo ég fór í að byggja upp loðdýrabú í góðærinu 1985-6.     Haustið 1987 var alveg frábært loðdýraár og himinhá verð fengust fyrir skinnin enda var ég þá að kaupa lífdýrin - að sjálfsögðu á himinháu verði.      1988 var heldur lakara loðdýraár enda setti ég mikið á og stækkaði búið!

Árin 1988-1991 eru svo síðasti harðindakaflinn í súluriti Stefáns, ekki voðaleg harðindi en leiðinda ár í tekjuþróuninni, samt miklu betri en vondu harðindin 1946-1949 og 1967-1969.      Ég fann hins vegar mjög vel fyrir erfiðleikunum því nú hrundi verð á minkaskinnum niður úr öllu valdi.     Með himinháan skuldaklafa á herðum sá ég mér þann kost vænstan að hætta og flytja á mölina.     Kiknaði þó aldrei alveg en nærri var það!      Áhyggjurnar voru þó til staðar og áðurnefndur erfðagalli fyrir hjartveiki fór að kynna sig endaði með hjartaáfalli 1991.     Ég lifði það dálaglega af og það sama virðist þjóðarskútan hafa gert því því samkvæmt súluriti Stefáns er hóglegt góðæri fram til 2009.      Reyndar segir Stefán að þetta sé falskt góðæri sem byggt á lánsfé og ójöfnuður í þjóðfélaginu hafi aukist öllum nema fáum til ama og leiðinda.       Svo skrítið sem það er þá er það sama að segja um líf mitt og heilsu.     Þó allt virðist á yfirborðinu slétt og fellt er þung undiralda, ég er búinn að fá nokkur hjartaáföll,  hvítblæði og annað sem hefur gert mér lífið leitt og erfitt og gert það að verkum að ég hef einmitt lent í þeim hópi fólks sem hefur hvað mest orðið fyrir hinu falska góðæri, nefnilega öryrkjum og öldruðum!      Og mér sýnist að nú í kreppunni eigi að höggva þetta fólk á borðstokknum ef svo má að orði komast - það er ráðið til að fleyta þjóðarskútunni gegnum skaflinn hennar Ingibjargar (sem hún er búin að vera að moka alla vega síðan í nóvember!Smile   Ef ég ætla að taka súlu Stefáns fyrir 2009 með í þetta lífshlaup mitt þá líst mér satt að segja ekki á blikuna því svona súla hefur ekki fyrr sést í mínu lifi.    Því held ég að best sé að stoppa hér með samlíkinguna og láta bara hverjum degi nægja sína þjáninguSmile

Umfjölluninni um grein Stefáns er þó hvergi nærri lokið því ályktanir hans um hið raunverulega og hið falska góðæri íslensku þjóðarinnar sýna svo ekki verður um villst að við höfum tekið rangan afleggjara á ferð okkar inn í framtíðina.    Það er líka greinilegt þó það sé hvergi sagt í grein Stefáns að stjórnvöld eru gegnsýrð af spillingu, sérhagsmunagæslu og ábyrgðarleysi og þjóðin er einhvern veginn meðvirk - hún umlíður þetta og virðist ekki hegna fyrir spillinguna á nokkurn hátt, hvorki í kosningum eða hinu almenna lífi.     Það má eiginlega segja að á þessu sviði sé þjóðin greindarskert eða að það vanti í hana eðlilegt mat á siðferði og því hvaða afleiðingar brot eiga að hafa.      Það er mikið talað um mikilvægi menntunar en ég hef á tilfinningunni að það sé öfugt hlutfall milli menntunar og siðferðis - því meiri sem menntunin verður því lægra verður siðferðisstigið.  Vonandi er þetta rangt því þá er verið að afsiða þjóðfélagið!!

Meginástæðan fyrir því að ég fór að velta grein Stefáns svona mikið fyrir mér voru þó ekki orð hans sjálfs heldur tilvitnanir hans í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar "Hvernig getur Ísland orðið ríkasta landi í heimi?" sem hann gaf út 2001.     Ég er nú ekki mikið lesinn og hafði aldrei heyrt af bók þessari en tilvitnanir Stefáns og umsagnir um bókina og um önnur skrif Hannesar gengu alveg fram af mér!   Ég ætla að ljúka þessari færslu með tilvísun í það sem í ritgerð Stefáns stendur um bók Hannesar.

Færslan opnast í WORD

Sé einhver maður sem á skilið "heiðurinn" af að hafa komið Íslandi á vonarvöl og gert það að þeirri gróðrarstíu spillingar og óhroða sem nú er að koma upp á yfirborðið þá finnst mér það vera Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann hefur þar vissulega notið liðsinnis margra en hugmyndafræðin virðist alfarið vera hans að því er að Íslandi snýr.

 

          


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir frábært framlag til okkar hinna, þeirra leitandi. Ég get ekki annað en dást af þeim sem lifað hafa tímana tvenna, þetta ástand í dag er kanski ekki fyrstu harðindi sem skollið hafa á ísland, en þau eru þau fyrstu sem ég upplifi. Til þess að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig þurfum við að kynna okkur söguna og orsök þeirra harðinda sem á undan hafa farið. Ég vona að syni þinu vegni sem best og að hann geti náð sér af þessum veikindum, og ég vona að þú haldir heilsu sem allra lengst, það er skylda yngri kynslóða að tryggja reynsluboltunum einsog þér sem lengstan tíma svo við getum lært af ykkur.
Takk fyrir mig

pétur (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 03:59

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikill andskotans snillingur ertu Ragnar; ég segi bara, takk fyrir mig!

Árni Gunnarsson, 12.1.2009 kl. 13:39

3 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Takk fyrir athugasemdirnar!     Já Árni minn, mér er ekki alls varnað - enda var ég sá eini sem var ókurteis á sjúkrahúsfundinum hérna og sagði Kristjáni Þór að hann væri einn af þjófa- og ræningjaliðinu og ætti að skammast sin og að það væri nær að skera niður varnarmálin!!     Þá sagði Kristján: "Jæja, svo þú vilt tala um utanríkismál.     Gerirðu þer grein fyrir að málaflokkurinn hefur bara 11,5 milljarða á fjárlögum svo það er ekki hægt að skera mikið meira niður þar!"  

Hvað finnst þér um Hannes Hólmstein.      Hann er maðurinn sem á að kalla þjóðníðing - er það ekki?     Hann - og kvótakerfið er upphafið að öllu hinu illa sem við erum að upplifa núna!

Ragnar

Ragnar Eiríksson, 12.1.2009 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband