Samábyrgð þingmanna!

Það er óhætt að segja að þessi dagur hafi verið glæsilegur í mótmælasögu Íslands og eins og konan sagði í sjónvarpinu: "Þetta er dagur eitt í mótmælum!"  Til hamingju Reykvíkingar, stjórnvöld fundu fyrir þessum mótmælum og þau voru ykkur til sóma!

Inni í þingsalnum var líka mótmælt og það kröftuglega af stjórnarandstöðunni að undanskildum Jóni Magnússyni sem skammaði stjórnarandstöðuþingmenn fyrir að vera á móti því að frumvarp hans væri á dagskrá.    Hann er ekki faðir Jónasar í Fjármálaeftirlitinu fyrir ekki neitt!  

Geir kom líka í ræðustól og sagði sem svar við fyrirspurn að ríkisstjórnin hefði unnið mikið verk í jólaleyfinu við björgun lands og þjóðar.    Þegar spurt var af hverju björgunarfrumvarpa sægi ekki stað í dagskrá þingsins varð fátt um svör og endaði Geir ræðuna á að tala um skort á vinnufrið og að ekki væri hægt að eiga orðastað við mann sem galaði eins og ræðumaður á mótmælafundi.   Var nokkur gustur á Geir úr ræðustólnum!    

Margendurtekin var ósk um að ríkisstjórnin segði af sér enda rúin trausti þjóðarinnar.    Það virðist líka sem traust stjórnarþingmanna sé að dvína því í viðtali í sjónvarpi RUV fyrir utan Alþingishúsið - á meðal mótmælenda - sagðist Karl V Matthíasson ekki viss um stuðning sinn við ríkisstjórnina.   Þannig að nú kemur kanske að því fljótlega að "öll vötn falli til Dýrafjarðar.!"

Enda er það svo að ábyrgð þingmanna er mikil, ekki bara stjórnarliða heldur allra þingmanna!   Með setu sinni á þessu þingi hafa þeir allir sem einn tekið beina og óbeina ábyrgð á orðum og gerðum ríkisstjórnarinnar.   Stjórnarandstöðuþingmenn, alla vega þingmenn VG neita þessu staðfastlega en hvað er það annað en meðvirkni og stuðningur að t.d. skipa menn í bankaráð nýju bankanna og ýmsar nefndir þingsins að beiðni ríkisstjórnar.   Þó hvorki VG eða Frjálslyndir beri ábyrgð á þróuninni undanfarna áratugi sem leiddi til hrunsins þá er ábyrgð þingmanna á setu stjórnar og þings eftir hrun mikil. Þar við bætist að mannorð þessara þingmanna hefur stórlega skaðast því þeir hefðu allir með tölu átt að vera búnir að segja af sér fyrir löngu.    107 dagar liðnir og enginn hefur axlað ábyrgð á stærsta hruni í heimi - alla vega miðað við fólksfjölda.  

Er það ekki með ólíkindum að við erum allan þennan tíma - yfir 100 daga - búin að bíða eftir landsfundi Sjálfstæðisflokksins?     Ég sagði það í október og segi það enn - því í ósköpunum þarf að bíða eftir úrskurði landsfundar smáflokks sem á bara eftir að minnka eftir því sem spilling hans og sérhagsmunagæsla kemur betur og betur í ljós.    Og árangur biðarinnar er nú að sjást - Geir segir mikið starf hafa verið unnið í jólaleyfinu - sýslumaður Árnesinga auglýsir harkalegar aðfararbeiðnir að 370 sunnlendingum!      Það er fínn samhljómur þarna!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér sýnist helst að þetta snilldar-áróðursbragð sem auglýsingastofan hannaði fyrir búsáhaldaverslanir hafi svínvirkað! Ríkisstjórnin er á undanhaldi og dagar hennar senn taldir. Sala á pottum hefur margfaldast og eigendur þeirra eru nú að upphugsa nýtt ástand til að mótmæla. Skoðanakönnun er í gangi þar sem skoðaður er samanburður á hávaða hinna ýmsu gerða og málma.

Bókartitill næstu metsölubókar: Efnahagshrunið á Íslandi og búsáhaldabyltingin.

Árni Gunnarsson, 23.1.2009 kl. 17:03

2 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Ég held aftur á móti að tilkynning sýslumannsins á háu hælunum hafi verið hans aðferð til að mótmæla sleifarlagi og vanhæfni ríkisstjórnarinnar í öllum sínum aðgerðarmálum.    Þessir menn eru í úlfakreppu, mega ekkert segja og eigi helst ekki að hugsa.     Þetta var snjöll leið til að mótmæla aðgerðarleysinu - þó það hristi þá sem fyrir urðu nokkuð mikið!   

Það er allt of lítill hávaði í pottum og pönnum - og svo eru þetta rándýr tæki sem gjaldþrota þjóð hefur ekkiefni á að eyðileggja eða týna!      Veistu að pottur kostar 4-6 þús. eða meira?      Það þarf einhverja blikkdalla.   Ég ætla að kanna þetta um helgina!      Ég held að svona 20 l dallur frá ESSO (Bjarna Ben.) gefi góðan hljóm!

Kveðja,

Ragnar

Ragnar Eiríksson, 23.1.2009 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband