27.11.2008 | 20:48
Meira blóð í kúnni!
Þann 22. nov.2008 var skrifuð grein á Silfur Egils (http://blogg.gattin.is/blog.php?view=page&id=s3a5xmf2nk) undir yfirskriftinni
"HA?" með tilvísun í frétt af morgnblaðsvefnum (
http://mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/11/22/thjodverjar_lana_islandi/).
Ég hváði líka því mér fannst það hafa komið fram að þessir "Kaupþing Edge"
reikningar væru á ábyrgð þjóðverja sjálfra. Nú eru liðnar réttar 8
vikur frá því að Glitnir var hertekinn, keyptur, ekki keyptur og svo féll
hann! Fátt hefur verið sagt og það sem þó var sagt hefur oftar en ekki
reynst vera ósatt en segja má að í hverri viku hafi eitthvert áfall dunið
yfir. Þessi áföll voru í fyrstu ansi stórkarlaleg - Landsbankinn fallinn,
Kaupþing fallið, risaskuldir erlendis í ICESAVE, o.s.frv. Þá koma loks
smá góðar fréttir, Davíð segir að við munum koma keik frá þessu því amma
sín hafi sagt að það ætti ekki að borga skuldir óreiðumanna en hins vegar
væri sparifé landsmanna alveg tryggt upp í topp!!! Sú gleði entist þó
varla til morguns því breskir ráðherrar skelltu hurðum og fjárhirslum
Kaupþings og Landsbanka á fingralanga bankaeigendurna og einhverjum anga af
hryðjuverkalögum á landið. Eftir að bresku ráðherrarnir hafa tekið okkar
ráðherra, þá Geir H. og Árna í starfsþjálfun er nú svo komið að þeir skrifa
undir allt sem að þeim er rétt og samþykkja að allt verði greitt upp í topp.
Til þess þarf þó peninga en af þeim er mun meira til í útlöndum en hér og
því hafa menn gengið þar um með betlistafinn, en höfðu framan af ekki erindi
sem erfiði. Þó kom að því að Davíð opnaði munninn aftur og sagði frá að
sér hefði tekist að kreista út lánsloforð frá Rússum, þeir höfðu meira að
segja hringt í hann sjálfir klukkan 6 að morgni! Því miður entist
lánsloforðið ekki nema fram undir hádegið því þá kom í ljós að um
misskilning var að ræða. Staðan í þessum IceSave- og Kaupþing-Edge
málum er víst nú þannig að við, íslenska þjóðin, nú eigandi íslensku
bankanna skuldum sparifjáreigendum í Bretlandi, Hollandi, Belgíu, Þýskalandi
og e.t.v. víðar heil reiðinnar ósköp af peningum, ég ætla ekki að reyna að
nefna þá tölu enda er hún óþekkt og langt yfir skilning venjulegs fólks
hafin. Það góða í málinu er að bankastjórar og bankaráðsmenn segja að
útistandandi kröfur bankanna séu langt, langt yfir þessari óþekktu tölu.
Það dregur þó úr gleðinni að sömu menn segja að mjög erfitt sé að breyta
eignunum í peninga, m.ö.o. þær séu óseljanlegar! Við fáum þó ekki að
vita hvaða eignir þetta eru en sennilega eru þetta svona eignir sem Phillip
Green mundi kaupa á 5% af verðgildinu og Davíð kalla ástarbréf!
Það er enn ónefnt að á grunni gömlu bankanna risu nýir, Nýi Glitnir, Nýi
Landsbanki og Nýja Kaupþing allir á nýjum kennitölum og með eignir (þ.e.
skuldir viðskiptamanna) gömlu bankanna. Skuldir gömlu bankanna urðu hins
vegar eftir hvernig sem það má nú vera því ekki getur ríkið stundað
kennitöluflakk, er það? Við venjuleg gjaldþrot koma skuldir og eignir til
jöfnunar.
Hruninu hefur mikið verið lýst með orðum úr sjómannamáli aðallega eru
árarnar og brimskaflinn mikilvægir. ISG og Geir lögðu á það áherslu að
allir réru í sömu átt og samtaka því við værum öll á sama bát. Jón
Sigurðsson í Seðlabankanum (allan hringinn held ég) nefndi að ekki mætti
hætta að róa og fleygja árunum í miðju ólaginu. Geir er enn að stýra
bátnum og ISG telur í fyrir ræðarana en hvorugt virðist gera sér grein fyrir
að báturinn er löngu brotlentur og liggur með hliðina opna og laskaða fyrir
ágjöf. Áhöfnin hefur undanfarnar 8 vikur reynt að fá skipstjórann til
að hætta að stýra en gengur það illa. Maður verður að vona það besta
en það lítur ekki gæfulega út þegar bæði skipstjóri og stýrimaður trúa því
að þau ein séu hæf og til forystu fallin.
HVAÐ ER TIL RÁÐA?
Það þarf að komast til botns í bankamálunum og ÞAÐ GETUR EKKI GENGIÐ NÓGU FLJÓTT! BARA STRAX!!!! Þegar fólk sér að farið er að sópa UNDAN teppunum og spilin eru lögð á
borðið kemst ró á í þjóðfélaginu því þá eygir fólk von um réttlæti.
Eins og segir í Aravísum : ÞIÐ EIGIÐ AÐ SEGJA MÉR SATT!
Fyrsta verkefni ætti því að vera að afnema bankaleynd með lögum og koma með
öll þessi hringavitleysu-keðjusamsæri upp á borðið! Það gefst jafnvel
tækifæri til að skoða fjármagnsflutninga gegnum Kaupþing í Luxembourg til
skattaparadísa eins og Jómfrúeyja. (Það væri ólán okkar ef Sigurði
Einarssyni tækist að kaupa útibúið undan nefinu á Fjármálaeftirlitinu eða er
það planið?!) Samtímis væri öllum starfsmönnum nýju bankanna alveg frá
bankastjóra til sendils (ef þeir eru til!) sagt upp og ráðið í stöðurnar
nýtt fólk sem ekki hefur starfað í gömlu bönkunum eða a.m.k. ekki sem
yfirmenn OG ER EKKI Í TENGSLUM VIÐ FJÁRGLÆFRAMENN. Síðan væri farið í það af krafti að safna upplýsingum um skuldir og ekki síður eignir á móti þessum skuldum bæði hérlendis og
erlendis. Þetta væri svo metið og unnið úr af grandvörum og heiðarlegum
mönnum og rakið hvort einhverjar misfellur væru!
Þessu starfi væri vonandi stýrt af nýrri ríkisstjórn, nýjum seðlabankastjóra
(annars er ekki mikil von um framgang málsins!) og nýju ópólitísku
bankaráði. Eiginlega þyrfti núverandi ríkisstjórn að fara frá strax því
það er augljóst að hún hefur ekki döngun í sér hvorki til að fást við
seðlabankastjóra eða við bankakerfið og það er augljóslega verið að selja út
úr bankakerfinu eignir sem ekki ætti að selja strax og þá alls ekki til sömu
manna og keyrðu þau í þrot.
RÍKISSTJÓRNIN HEFUR EKKI HREINT MÉL Í POKAHORNINU!
Ríkisstjórn og þing þarf svo að vinna bráðan bug að því að bjarga almenningi
og fyrirtækjum úr skuldaklöfum verðtryggingar, gengisáhættu og Guð má vita
hvað annað þjáir. Stöðva nauðungarsölur og láta ríkið í þess stað kaupa hluta
húsnæðis. Festa verðtryggingu og vexti. Skuldbreyta myntkörfulánum ef
það er til bóta. Lengja greiðslufresti, fella niður seðilgjöld, fella
niður öll stimpilgjöld og hafa almennt samræmi milli álagningar gjalda og
þess kostnaðar sem til fellur! Hlusta eftir hvað almenningur og
sveitarfélög segja og biðja um.
Innköllun á öllum fiskikvóta til ríkissins og útleiga á sanngjörnu verði er
sjálfsögð aðferð til að fénýta kvótann í þágu alls amennings og til að borga skuldir. Þá er frjáls
handfæraveiði innan t.d. 4 sjómílna sjálfsögð til að koma lífi í
sjávarbyggðirnar. Með kvótasetningu ætti að líta meira til færeyinga!
Biðja Hafró að endurskoða rannsóknarstefnu sína og reyna að samræma hana og
reynslu sjómanna og almennt hafa meira samráð og samvinnu við sjómenn.
Biðja sjómennina sem dæmdir voru í sektir hér en sýknaðir fyrir
Alþjóðadómstólnum afsökunar og greiða þeim bætur eins og þeim
ber - a.m.k. þegar fer að ára betur og helst áður en þeir fara í gröfina.
Eftir dauðann væri þó betra en ekkert!
Auka mannfrekar framkvæmdir sé þess einhver kostur.
Skera niður allan kostnað til varnarmála annað en það sem landhelgisgæslan
þarf.
Ganga úr Shengen-samstarfinu, það er ekkert nema tilkostnaðurinn að vera
útvörður í þessu samstarfi. Fólk er hvort sem er alltaf með skilríki með
sér og hefur nógan tíma í vegabréfaskoðun.
Þegar frá líður má svo fara að skoða hvort gjaldmiðilsskipti og innganga í
ESB eru vænlegir kostir og tíunda þá bæði kosti og galla. Til dæmis
finnst mér það bráðsnjöll rök frá einhverjum ESB-embættismanni fyrir að
ganga í ESB sé að þá getum við breytt sjávarútvegsstefnunni innan frá .
Alveg geníalt!
Einhvers staðar á blogginu sá ég þeirri hugmynd velt upp að ríkið keypti svo sem 100.000 farmiða tur-retur af Flugleiðum/Iceland Express á umsömdu lágu verði og endurseldi túristum á vægu verði. Túristarnir myndu svo kaupa mat, þjónustu og vörur af ferðaskrifstofum og skila miklum gjaldeyri í kassann. Þetta kom reyndar í hug minn af enn öðru tilefni - nefnilega því að talað er mikið um að "nú þurfi að velta við hverjum steini"! Þá koma mér í hug ferðamannastaðir á hálendinu þar sem hverjum steini hefur verið velt við á stórum svæðum til að til að ger þarfir sínar undir þá. Þarna er mikilvægt og sennilega mannfrekt verkefni en sennilega ekki svo mjög dýrt að setja upp klósett og laga gangstíga á öllum helstu ferðamannastöðunum (og jafnvel víðar) fyrir utan að vera löngu tímabært. Þá væri í leiðinni hægt að laga klósettin við Dettifoss sem verið hafa biluð í 2 ár en ég veit að það mundi gleðja Sigurð G. Tómasson útvarps- og leiðsögumann og finnst mér honum það ekki of gott eftir að þeir vildarvinirnir hann og Guðmundur eru búnir að spá öllum þessum hörmungum í ein 5-7 ár á Útvarpi Sögu - og loksins rætast allt saman!
Vafalítið mætti nefna fleira sem gera þyrfti til að skapa atvinnu en mig brestur þor og reyndar hugmyndir líka.
Kveðja,
Ragnar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.