Til mótmælenda: Sækja þarf að þingmönnunum!

Það eru engir veikir hlekkir í þessari ríkisstjórn, hún er án kunnáttu, án ábyrgðar og allir ríghalda í stólana sína!    Það er nákvæmlega sama hvaða spillingarmál koma upp, allt er utan ábyrgðar ríkisstjórnarinnar.     Eitt er þó alveg víst, RÍKISSTJÓRNIN SITUR Í ÁBYRGÐ ALLRA ÞINGMANNA, stjórnarliða jafnt sem stjórnarandstöðu.   Þeir aðstoða hana dyggilega við alla handarbakavinnuna og virðast hvorki skeyta um skömm eða heiður, hvort stjórnarskráin sé virk eða ekki eða hvort lögin stangist á við hana.   Mikill asi er á öllu núna og maður veltir fyrir sér hvort sjái fyrir endann á gagnaeyðingunni og ráðamenn séu að verða komnir í öruggt skjól eða hvort einhver önnur ástæða sé fyrir flýtinum.    

Eftir hið augljósa áhrifaleysi mótmælanna fyrstu tvær til þrjár vikurnar fannst mér augljóst að það þyrfti að sækja á öðrum vígstöðvum,  nefnilega að þingmönnum.    Það þarf að fá að vita hvort þeir taka ábyrgð á öllum þeim ósóma sem upp hefur komið og fá að vita skýrt og greinilega hvað þeir ætla að gera í einstökum málum.     Einfaldast er að taka hús á þingmönnunum - þetta gera Vottar Jehóva og er ekki leiðum að líkjast þar.     Mér finnist hæfilegt að það fari svona 10-15 manns í hóp á hvern þingmann - með segulbandsupptökutæki eða videovél og spyrji þá um hvað þeir ætli að gera.     Það má t.d. byrja á starfsemi FME, hvort þeim finnist eðlilegt að KPMG var sett til að skoða Glitni, hvort það sé eðlilegt að það taki KPMG 2 mánuði að uppgötva að þeir voru vanhæfir frá byrjun, hver eigi að borga fyrir þessa 2 mánaða endurskoðunarvinnu og hvort ekki megi út frá þessu máli öllu álykta að forstjóri og yfirmenn FME valdi ekki starfi sínu og eigi að hætta.     Síðan verður að sjálfsögðu að spyrja þingmanninn hvað hann ætli að gera eða hvort hann ætli ekki að gera neitt.

Svona - eða miklu betur - mætti taka svona 2-3 mál önnur og fá afstöðu þingmannanna og væntanlegar aðgerðir þeirra.      Ef t.d. þingmaður viðurkennir vanhæfni stjórnar FME er honum ekki stætt á öðru en flytja eða styðja tillögu um brottrekstur stjórnenda FME úr starfi.

Þá er afstaðan til eftirlaunafrumvarpsins ekki síður mikilvæg að fá fram.      Frumvarp ríkisstjórnarinnar er reyndar ekki komið fram en það má spyrja hvernig þingmönnunum falli frumvarp VG í geð og hvort þeir styðji að það komist úr nefnd og til 2. umræðu.

Ég held að þetta sé eina leiðin til að brjóta niður varnarmúrana - að þingmenn verði að sýna fyrir hvað þeir standa og að þeir séu ekki bara gólftuskur ríkisstjórnar sem situr í óþökk flestra.       

 

          


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þeir eru farnir að rembast svo mikið við að reyna að vera gáfulegir þarna í Alþingishúsinu að þeir eru hættir að muna hvað þeir eru að tala um og svo eru þeir hættir að þykjast skilja mannamál. Þegar þeir Guðjón Arnar, Atli Gísla og Steingrímur J. taka til máls þá hrekk ég alltaf við því ég átta mig strax á því hvað þeir eru að tala um.

Það er lífsspursmál að stofna nýjan stjórnmálaflokk með eðlilegu fólki úr vinnandi stéttum. Við þurfum ekki fleiri tilraunir með langskólagengna bjána. Síðan Vilhjálmur á Brekku hætti þingmennsku fyrir aldurs sakir ber ég ekki virðingu fyrir nokkrum manni í þeim skelfilega klúbbi. Nú er það reyndar komið í ljós að Vilhjálmur hætti allt of ungur. 

Árni Gunnarsson, 16.12.2008 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband