Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.12.2008 | 15:52
Það verða kosningar fyrr en seinna!
Það stenst ekki heilbrigða hugsun að ríkisstjórnin geti setið mikið lengur án þess að segja af sér og boða til kosninga. Hún veit hún hefur óhemju stóran meirihluta þjóðarinnar á móti sér, öll hennar verk eru dæmd af því sem á undan er gengið og þar ber hæst andvaraleysi, fyrirhyggjuleysi, heimska og óheppni. Hún dröslar með sér líki frjálshyggjunnar sem allir hafa nú andstyggð á. Ofan á þetta bætist svo að nánast öll hennar verk eftir bankahrunið eru mislukkuð. Hvernig væri björgunarsveit metin ef það tæki hana 2-3 mánuði að komast á björgunarstað eins og tilfellið er með NEYÐARAÐSTOÐ VIÐ NÁMSMENN? Mundu menn kaupa flugeldana þar??? NEI! Og rannsóknin á hruninu og skuldaafskriftirnar og þetta og hitt. ALLT MISLUKKAÐ. Ríkisstjórnin hlýtur að fara að sjá að sér - sjá það sem allir aðrir sjá og H.C. Andersen benti á í frægu ævintýri:
Ríkisstjórnin er ekki í neinum fötum - hún er ber!
Ef svo fer þarf umsvifalaust að fara að huga að nýjum framboðum því ég skal hundur heita ef ekki er grundvöllur fyrir þeim núna! Það er hins vegar ekki auðvelt að koma slíku á koppinn, það þarf bæði fólk og peninga og svo þarf að ná lágmarksfylgi, 5% á landsvísu til að koma manni á þing. Ég held að það næðist miklu betri breidd í þingliðið með því að lækka lágmarksfylgið niður í t.d. 2,5 %. Þá ættu ýmsir smáflokkar von. Ég held t.d. að það sé ekkert gott fyrir VinstriGræna að fá sjálfstæðisfylgi í kosningum - miklu betra að hafa 15-20% og hafa marga smáflokka með sér sem eru með fáa þingmenn en fullt af hugsjónum og heiðarleika sem þarf að komast að!
Það góðverk gæti ríkisstjórn og Alþingi gert áður en að það fer í kosningafrí að breyta lögum um kosningar til Alþingis (lækkað lágmarksfylgi) og lögum um Fjármál stjórnmálaflokka þannig að mögulegt sé að veita nýjum framboðum fjárstuðning. Um slíkt þarf að sjálfsögðu að setja einhverjar reglur - en það ætti nú ekki að vefjast fyrir mönnum að vera nú einusinni sanngjarnir og heiðarlegir og hafa reglurnar ekki eins og endursköpuðu eftirlaunalögin (þ.e. nánast engu breytt!) Ætli stjórnmálamönnum fari ekki að verða ljóst að þjóðin vill nýtt landslag og ný viðhorf í stjórnmálin!
Ég set hér inn úrdrátt úr kosningalögum og lögum um fjármál stjórnmálaflokka lesendum til glöggvunar.
Lög um kosningar til Alþingis
2000 nr. 24 16. maíÚthlutun jöfnunarsæta.
108. gr. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.
Til þess að finna hve mörg jöfnunarsæti koma í hlut stjórnmálasamtaka, sem fullnægja skilyrðum 1. mgr., og hvaða framboðslistar þeirra hafa hlotið jöfnunarsæti skal fyrst telja saman atkvæðatölur þeirra á landinu öllu og kjördæmissæti þeirra skv. 107. gr.
- 2006 nr. 162 21. desember Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra
3. gr. Framlög til stjórnmálasamtaka úr ríkissjóði.
Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2008 | 22:56
Páll Skúlason í þætti Evu Maríu og hegningarlög!
Hér er viðtal Páls Skúlasonar í þættinum Sunnudagskvöld með Evu Maríu. Páll Skúlason er prófessor í heimspeki og fyrrverandi háskólarektor. Því ættu orð hans að hafa allnokkurt vægi og þess virði að á þau sé hlustað. Sérstaklega má vekja athygli á síðari hluta viðtalsins, eftir 20. mínútu eða svo.
Úr hegningarlögum:
Almenn hegningarlög1)
1940 nr. 19 12. febrúar
X. kafli. Landráð.
86. gr. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.
.
.
91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
Hafi verknaður sá, sem í 1. og 2. mgr. hér á undan getur, verið framinn af gáleysi, skal refsað með
1) fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.
-------------------------------
Eftir því sem ég best fæ séð gera hegningarlög alls ekki ráð fyrir því að það sé refsivert að stjórnvöld setji landið á hausinn, sama hvað er, viljandi, af vangá eða heimsku. Stjórnvöld virðast stikkfrí í dæminu. Það er í mesta lagi hægt að klekkja smávegis á embættismönnum t.d. fyrir ólögleg hlutabréfaviðskipti! En ríkisstjórnin má gera hvaða vitleysu sem er - það er greinilega allt í boði kjósenda!
Þó held ég að það hafi verið kafli um aðgerðir sem valda því að erlent ríki gerir árás eða t.d. setur hryðjuverkalög - ég bara fann hann ekki aftur og nenni ekki að leita meira!
O sei, sei, já! Og hananú!
29.12.2008 | 07:44
Svar til Haraldar Hanssonar um Pál og landráðin
Sæll Haraldur og ég þakka tilskrifið. Ég þakka einnig fyrir öll skrifin þín sem ég er sammála í nánast einu og öllu. Það er fengur að svo greinargóðum skrifum um ESB því ég ætla ekki að lesa Lissabontraktatinn (kanske úrdrátt á Dönsku einhvertíma!).
Varðandi ræðu Páls þá fór hún víða og var ekki einnar yfirlestrar(-hlustunar ) ræða. Ég er reyndar stoltur af að hafa verið með Páli í barnaskóla en fljótlega eftir það skildu leiðir - ég spilltist og fór að reykja og gekk svo Meðaljónaveginn en Páll stefndi strax upp og gat það! Eins og ég segi við Árna - Páll gat ekki gengið lengra miðað við núverandi ástand í þjóðfélaginu - ÞÖGGUNINA. Ég fjallaði í einum pistli hér áður um að Ómar Ragnarsson væri heiðarlegur maður - sem hann er! Hann er hins vegar enn á því stigi sem flestir ef ekki allir hér í Bloggheimum - að þegja fremur en segja sannleikann við menn. Svo er einnig um Ólínu Þorvarðardóttur. Hún skrifar pistil og mærir Pál og tekur svo orð hans um samvinnu og samhug að verða og mærir það sérstaklega. Framboð í vændum? Menn hafa hengt sig í aukaatriði alveg endalaust en í fréttum Stöðvar 2 kom SÖNNUNIN FYRIR LANDRÁÐUM ALVEG ÓTVÍRÆTT FRAM. Fyrst kom Guðni og sagði " Dimm óveðursský HRANNAST upp!" Svo kom Geir H. Haarde og sagði: Þetta eru einhverjir erfiðleikar "EN ÞAÐ ER FJARRI ÞVÍ AÐ BANKARNIR SÉU OF STÓRIR!" Svo settist liðið undir árar og hvert réri það: ÞAÐ RÉRI UNDAN STRAUMI MEÐ STÝRIMANN GEIR TIL AÐ TELJA Í! Í stað þess að snúa bátnum og róa á móti - reyna eitthvað - alla vega fara með sjóferðabænina!!!!! Þetta var e.t.v. of seint en maður fær stundum prik fyrir viðleitni!
Varðandi fólk hér á blogginu almennt þá er gagnslaust að hafa skoðun og segja hana ekki nema í hálfkveðnum vísum eða með einhverja hliðarvinkla utan í málið.
Ég kann alla vega illa við að banka í mann og segja "Heyrðu, snúðu þér við, ég ætla að stinga þig í bakið"!!!!!!!!!!!!
Það er líka tilgangslaust að skamma undirsátana, seðlabankann, FME, skilanefndir og hvað nú annars er verið að skamma. GEIR OG RÍKISSTJÓRNIN ERU MEÐ ÁBYRGÐINA ER AÐ ÞJÓÐINNI SNÝR OG ÞETTA FÓLK BER AÐ REKA FRÁ VÖLDUM,
Ragnar Eiríksson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2008 | 00:16
Afsökunarbeiðni!
Ég biðst hér með afsökunar á að hafa misritað nafn Fréttagáttarinnar í pistli um ritskoðun þar sem átt var við Blogggáttina. Með því að skrifa þetta ætti umræddur pistill að detta út. Það er rétt að maður á að lesa viðeigandi leiðbeiningar þó það vilji nú brenna við að það gleymist. Ég tel mig reyndar hafa séð fleiri færslur sama höfundar í einu en málið er ekki alvarlegt - alla vega ekki fyrir mig og þessi þjónusta er alla vega frábær, bæði Blogg- og Fréttagáttin!
Kveðja,
Ragnar
28.12.2008 | 23:06
Ritskoðun Fréttagáttarinnar
Um klukkan 2220 birti ég smá pistil um hvað ég tók eftir í viðtali Evu Maríu við Pál Skúlason. Þegar ég svo skoðaði færsluna sá ég að ég hafði gleymt einni setningu svo ég fór í að skrifa viðbót. Þegar hún svo birtist klukkan 2240 þá var fyrri færslan svei mér þá horfin af lista FRÉTTAGÁTTARINNAR. Á ég að trúa því að ritskoðun sé í gangi eða er meðal vistunartími kominn niður í 10 mínútur. Til mótvægis hangir Jens Guð inni með hina viðbjóðslegu morðmynd í marga daga! Ja hérna, ég segi nú ekki margt! Og ég gerði nú eiginlega ekkert af mér þarna nema að hrósa Ómari Ragnarssyni fyrir að vera heiðarlegur!
Ragnar Eiríksson
28.12.2008 | 22:42
Hvað sagði Páll Skúlason? - smá viðauki
Ég gleymdi lokasetningunni í fyrri færslu!
Geir H Haarde. Þú átt að víkja frá stjórn landsins með allt þitt hyski!
Orðið "hyski" er hér notað í sömu meiningu og þegar í gamla daga var sagt: "Hér býr Jón bóndi með allt sitt hyski". Var það ekki endilega vont fólk en svona var alla vega ekki sagt um yfirstéttarfólkið!
28.12.2008 | 22:28
Hvað sagði Páll Skúlason?
"Landráð af gáleysi eru líka landráð". "Það er talsverð spilling í viðskiptalífinu en ég held það sé lítil spilling í stjórnmálunum" (ekki alveg öruggt með orðalagið hér!). Páll sagði líka að þeir sem stjórnuðu landinu ættu að axla ábyrgð og láta af störfum því þeir hefðu ekki traust þjóðarinnar. Hann vildi þó ekki persónugera þetta sem er reyndar svolítið kúnstugt að mér finnst, því þeir sem stjórnuðu landinu hafa enga ábyrgð axlað, hlusta ekki á almenning, sýna ekki heilbrigða skynsemi og sitja eins og einvaldsherrar sem ráðskast án raunverulegs umboðs með fjöregg þjóðarinnar. Ætli Páll Skúlason geti staðið við þau orð að stjórnmál á Íslandi séu lítið spillt? Betur að satt væri en ég trúi því ekki - það er verið að fela eitthvað mjög ljótt að ég held!
Það sem Páll sagði um nýtt siðferðismat í stjórnmálum eru orð í tíma töluð.
Mér fannst hann vilja kenna þjóðinni um á hve lágu plani stjórnmálin væru. Mér finnst þetta ekki réttmætt því það hefur markvisst verið unnið að því að þagga niður raddir fólks sem ekki samrýmdust því sem valdhafarnir vildu og hefur ýmsum ófögrum meðulum verið beitt. Má þar benda á stuðning ríkisins við stjórnmálaflokka og kröfur um lágmarksfylgi sem t.d. eyðilagði möguleika Ómars Ragnarssonar - heiðarlegs manns - um að komast á þing. Það væri betra fyrir okkur núna að hafa hann á þingi - alveg burtséð frá skoðunum hans. Við þurfum að fá að kjósa heiðarlegt fólk á þing með siðferðismat eins og Ómar hefur!
Ragnar Eiríksson
27.12.2008 | 12:37
ICESAVE eignir Landsbanka og Baugs
Hvaða eignir skyldu helst vera í eignasafni Landsbankans og Baugs. Eru það ekki tuskubúðir sem nú munu unnvörpum verða gjaldþrota eftir verstu jólasölu í áraraðir eða jafnvel nokkurn tíma og útsölur með allt að 95% afslætti!!!!
Er þá ekki útséð um hverjir þurfa að borga ICESAVE-dæmið upp í topp! Auðvitað við íslendingar með hina frábæru samningamenn Geir og Ingibjörgu Sólrúnu og þurfum engu að kvíða!
Ríkisstjórnin lifi!
Sækjum um ESB-aðild strax meðan við höfum aðgang að hæfileikum þessa frábæra fólks!
Ragnar
27.12.2008 | 10:56
Framhaldssagan - engar berar konur!
Geir H. Haarde er forsætisráðherra og hann er maðurinn til að tala um og við þessa dagana. Ég hélt hann væri vís maður, göfugur og velviljaður og þannig kemur hann fyrir! En annað hefur komið á daginn. Hann er eini maðurinn sem getur slitið þessari ríkisstjórn - nema auðvitað að ISG gangi úr skaftinu, en það þorir hún ekki fyrir sitt litla líf, það gæti minnkað ellilífeyrinn hennar! Já, þess vegna er Geir maðurinn sem verður að taka á sig allar þær sakir sem fyrir liggja, sín mistök, mistök samráðherra, seðlabankastjóra, fjármálaeftirlits , skilanefnda, o.s.frv. Hans er líka ábyrgðin á fjárdrætti og svikum í sambandi við bankahrunið. Má þar nefna vitneskju Baldurs Guðlaugssonar ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis um yfirvofandi gjaldþrot Landsbanka og eftirfylgjandi sölu hans á hlutabréfum. Ekki má gleyma niðurfellingu skulda æðstu yfirmanna Kaupþings vegna hlutabréfakaupa þeirra sömu manna sem er alfarið á ábyrgð Geirs verði hún að veruleika eða hafi verið framkvæmd. Þar við bætist þá yfirhylming með eigin ráðherra sem að öðrum kosti situr í skuldasúpunni! Og þetta er bara byrjunin, allt í boði Geirs H. Haarde sem ALLS ENGA ÁBYRGÐ BER Á ÞVÍ SEM SKEÐ HEFUR. HANN VAR Í BRUNALIÐINU OG HELDUR ÁFRAM VASKLEGA AÐ BRENNA - EN ÞYKIST VERA GENGINN Í SLÖKKVILIÐIÐ OG VERA AÐ SLÖKKVA.
HANN ER VERRI EN SÁ SVARTI SJÁLFUR mannskrattinn!
En hans persónulega ábyrgð er engin og svo má einnig vera um þá pólitísku! Skoðum samt málið. Hann er víst með fjármálalega menntun og var fjármálaráðherra áður og á góðæristímum. Þá voru skattar lækkaðir, aðallega á hátekjufólki með þeim rökum að ef það ætti að borga minna kæmi meira í kassann - augljós sannleikur þar sem skattkerfi hinna háu er/var svo götótt að þar ganga úlfaldar klyfjaðir gulli í gegn fyrirhafnarlaust. Þá voru skuldir ríkisins greiddar allnokkuð niður en ekki athugað að erlendar skuldir banka og einstaklinga margfölduðust. Hins vegar var ekkert gert til að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans meðan tækifæri var til og lánstraust í lagi.
Ég hlustaði svo á brot úr útvarpsviðtali við forsætisráðherra í fyrradag. Viðtalið var frá því fyrir síðustu áramót og þar sagði Geir eitthvað á þá leið að hann skildi bara ekkert í þessu vantrausti á íslensku bönkunum í útlöndum og ríkisstjórnin yrði að ganga í það verk að útskýra fyrir þessum útlendingum að bankarnir okkar væru traustir og vel reknir. Þegar þarna var komið voru bæði erlendir og íslenskir aðilar búnir að hafa uppi mörg varnaðarorð - lengi - ég nefni bara Þorvald Gylfason af okkar eigin fólki. Þá höfðu íslensku bankarnir misst lánalínur sínar - þarna kom alveg nýtt orð sem ég hafði aldrei heyrt um fyrr "LÁNALÍNUR".
Innskot: Ég horfði svolítið á sjónvarp í gær og lenti m.a. á að horfa á hvernig kaðall er búinn til. (Lánalína!). Þar var ofinn kaðall, svona álíka sver og vísifingurinn á Halla í Tumabrekku heitnum. Halli var all handstór maður,hestamaður og handfastur vel, ef hann náði í makkann á tryppi þá fór það ekki lengra! En þarna ófst þessi fallegi fingursveri kaðall og í lokin var slitþolið kannað - 10 tonn - hefði verið góður í lánalínu Seðlabankans!
Um þetta leyti kom skýrsla Danske Bank, uppfull af staðleysum, misskilningi og skilningsleysi! Hún birtist víst líka á ensku og Kaupþing fór í mál í Bretlandi, vann og fékk skaðabætur. Skyldu þeir fá bætur ef þeir færu í mál nú? Það varð alla vega að gera eitthvað í málinu og Geir og Ingibjörg fóru bæði í víking til að tala fyrir íslenska bankakerfinu í Danmörku ásamt helstu útrásarvíkingunum og héldu blaðamannafund til að skýra undrið! Samtímis þessu man ég eftir að alltaf var verið að spyrja á Alþingi hvernig gengi að fá erlend lán til að auka gjaldeyrissjóðinn og svarið var ávallt hið sama, að það gengi vel og verið væri að kanna málið.
VAR EKKI ÞÁ ÞEGAR BÚIÐ AÐ SKERA Á ALLAR LÁNALÍNUR SEÐLABANKANS LÍKA?????? Það mátti að sjálfsögðu ekki segja né heldur að margsinnis var búið að benda Geir á að tala við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
OG ALLTAF SAGÐI GEIR VIÐ ÞJÓÐINA AÐ ALLT VÆRI Í HIMNALAGI, BARA SMÁHNÖKRAR SEM EKKI VÆRU UMTALSVERÐIR!!!
GEIR H. HAARDE. ÞARNA ER BEIN PÓLITÍSK ÁBYRGÐ SEM ÞÚ BERÐ Á ÞVÍ HVERNIG KOMIÐ ER. ÞÚ ÁTT AÐ SEGJA AF ÞÉR.
----------------------------------------------------
fortsættes i næste nummer
27.12.2008 | 09:10
Ég samhryggist Mosfellingum
Ég vil hér með samhryggjast Mosfellingum með að hafa fengið einhverja fóðursýkingu í hóp af hrossum sínum og hafa misst marga. Ég lenti í svipuðu áfalli 1994 þegar ég missti 7 hross vegna eitrunar af völdum heys sem ég gaf sem jólaglaðning. Skaðinn var mikill en tilfinningalega var það nánast óbærilegt að horfa upp á hrossin kveljast og deyja eitt af öðru og geta ekkert gert. Ég hef aldrei grátið meira og ég græt með ykkur Mosfellingar.
Mínar bestu kveðjur og óskir um að einhverjum batni.
Ragnar Eiríksson, Sauðárkróki